Seiðkonur, grasaguddur og allt það lið

Nafn:

Seiðkona

Tenglar

Flokkur: Mánuðir og þeim viðkomandi

11.02.2008 21:02

Gyðja lærdóms og viskuÍ dag er dagur gyðjunnar Sarasvati. Hún er einnig gyðja lista og er oft sýnd spila á sítar. Hún hefur fjórar hendur sem standa fyrir fjórar hliðan mannsin´; huga, gáfur, alertness og egó. Í einni hendi hefur hún helg rit, á  annari hendi spilar hún á hljóðfæri . Hún klædd í hvítt sem er tákn fyriri hreinleika og hefur hvítan svan sem fararskjóta.04.02.2008 21:02

Langafasta, bolludagur, sprengidagur og öskudagur.

Langafasta/sjöviknafasta:
Einn hluti kirkjuársins nefnist langafasta. Annað heiti yfir þennan tíma er sjöviknafasta. Með henni er verið að minna á þann tíma sem Jesús fastaði í eyðimörkinni, það er að segja dagana 40 eftir að hann var skírður í ánni Jórdan. Öll fastan miðar að dauða Jesú, og hinn ævaforni siður, að reyna að halda sig frá neyslu kjöts á þessu tímabili, helgaðist af því að ekki þótti sæma manninum að lifa í vellystingum á meðan frelsari heimsins píndist. Þetta er með öðrum orðum undirbúningstími, þar sem kristinn söfnuður íhugar af alvöru þá atburði sem leiddu til aftöku meistarans á föstudaginn langa fyrir bráðum 2000 árum. Til þess að undirstrika þetta breytist litur kirkjuársins á föstunni úr grænum í fjólublátt, sem er merki iðrunar og dapurleika.

Fram að siðbreytingunni, í byrjun nýaldar, var rómversk-kaþólska kirkjan eina trúfélag kristinna manna í Vestur-Evrópu og voru föstur stundaðar á vegum hennar á miðöldum, ekki síður en nú. Dæmi um það er víða að finna í gömlum íslenskum ritheimildum. Heiti föstudagsins kom inn í málið fyrir tilstilli Jóns biskups helga Ögmundssonar í byrjun 12. aldar, þegar lögð voru af hér dagaheiti tengd goðum fornnorræns átrúnaðar. Áður hét þetta frjádagur og var að talið er helgaður konu Óðins, Frigg, en suðurgermanir könnuðust við hana undir nöfnunum Friia og Frea.

Langafasta hefst samkvæmt venju á miðvikudegi í sjöundu viku fyrir páska, það er að segja á öskudag, sem getur verið á bilinu frá 4. febrúar til 10. mars. Nafnið á rætur í því að í kaþólskum sið var ösku dreift yfir höfuð iðrandi kirkjugesta þennan dag. Aska hefur löngum verið tákn hins óverðuga, eins og víða má sjá í Biblíunni og nægir þar að vitna í Mósebók: "Æ, ég hef dirfst að tala við Drottin, þótt ég sé duft eitt og aska" Í augum margra kristinna eru þetta sjö helgustu vikur ársins.

Íslensk kirkja heldur enn þennan föstutíma í heiðri, þótt ekki sé lagst í beinan meinlætalifnað. Í stað þess er pínu Jesú og dauða sérstaklega minnst. Sterk hefð var fyrir því á kaþólskum tíma að hugleiða efni píslarsögunnar. Hins vegar breyttist ýmislegt með tilkomu passíusálmanna, sem voru fyrst prentaðir árið 1666 og hafa komið oftar út en nokkurt annað rit á Íslandi.

Lestur passíusálmanna í Ríkisútvarpinu á Rás 1 hefur verið óaðskiljanlegur hluti föstunnar allt frá árinu 1944. Frumkvæði að því átti Magnús Jónsson, prófessor og þáverandi formaður útvarpsráðs. Fyrstur til að lesa passíusálmana þar var Sigurbjörn Einarsson, þá dósent við guðfræðideild Háskólans og síðar biskup Íslands. Útvarpslesturinn miðast reyndar við níuviknaföstu og lýkur að kvöldi laugardags fyrir páska.

Orðið passía er komið úr latínu og merkir þjáning. Af því orði er heiti sálmanna dregið; í þeim er rakin píslarsaga meistarans. Því má kannski segja, að hin líkamlega fasta kaþólskra manna hafi vikið eða breyst með tilkomu evangelísk-lútherskrar kristni og orðið meira á andlegum nótum, með aðalfæðu í áðurnefndu snilldarverki Hallgríms Péturssonar frá 17. öld.Bolludagur:
Er á mánudegi 7. vikum fyrir páska og lendir á tímabilinu frá 2. febrúar til 8. mars . Sá siður að borða bollur og flengja barst hingað frá Noregi og Danmörku seint á 19. öld. Siðurinn að vekja fólk með flengingu á sér líklega kaþólska fyrirmynd í táknrænum refsingum sem sumir lögðu á sig á föstunni til iðrunar og minningar um pínu frelsarans. Þegar siðurinn barst til Íslands er ekki lögð dýpri merking í hann en sú að börn fengu útrás fyrir galsa sinn og gátu orðið sér úti um bollu. Bolludagur er íslenska heitið á þessum ágæta degi.


Sprengidagur:
Er á þriðjudegi 7 vikum fyrir páska. Kjötát á sprengidegi á rætur í kaþólskum sið enda var þetta síðasta tækifærið að borða kjöt fyrir föstuna. Helsti veislukosturinn var lengstum hangikjöt þar sem salt var af skornum skammti. Frá síðari hluta 19. aldar er vitað um saltkjöt og baunir á sprengidag og er sú hefð almenn í dag.

Öskudagur:
Er upphafsdagur lönguföstu, miðvikudagurinn í 7. viku fyrir páska. Dagsetning hans getur sveiflast á milli 4. febrúar til 10. mars, sem segir okkur að öskudagurinn í ár (5. mars 2003) er seint á ferðinni. Öskudagur hefur lengi verið mikilvægur í katólska kirkjuárinu og nafn hans er dregið af því að þá er sumstaðar ösku dreift yfir höfuð kirkjugesta, og til þess notaður jafnvel sérstakur vöndur. Annarsstaðar þekkist að ösku sé smurt á enni kirkjugesta. Eins og lesa má á mörgum stöðum í Biblíunni, táknar aska hið forgengilega og óverðuga en að auki hefur hún verið talin búa yfir heilnæmum og hreinsandi krafti. Langafasta er hinn kirkjulegi tími iðrunar og dreifing ösku yfir söfnuðinn minnir hann á forgengileikann og hreinsar hann um leið af syndum.

Nafnið öskudagur kemur fyrir í íslenskum handritum frá 14. öld og leiða má líkum að því að það sé enn eldra. Þar má sjá að dagurinn gegnir sama hlutverki hér og í öðrum katólskum sið í Evrópu, hann er dagur iðrunar fyrir gjörðar syndir. Langafasta átti að vera tími íhugunar og góðrar breytni, auk föstunnar að sjálfsögðu, sem á Íslandi takmarkaðist yfirleitt við kjötmeti en gat einnig náð til fiskvöru og mjólkurafurða. Ef langt var gengið hljóðaði mataræðið upp á vatn og brauð.

Evrópu tíðkuðust, og tíðkast enn þar og víða í heiminum, sérstakar kjötkveðjuhátíðir síðustu dagana fyrir lönguföstu, miklar útihátíðir og skemmtanir. Föstuinngangur fer saman við vorkomu í suðlægari löndum og þar hafa heiðin hátíðahöld örugglega haft áhrif sem síðan hafa borist til norðlægari landa. Dagarnir fyrir upphaf föstu voru líka hefðbundnir uppgjörsdagar skatta víða í Evrópu, sem gjarnan voru greiddir í búfénaði og matvælum. Hjá aðalsmönnum hefur því verið til ógrynni matar á þessum tíma sem helst þurfti að nýta sem fyrst vegna bágra aðstæðna til matvælageymslu. Heldra fólk gerði því vel við sig í mat á þessum tíma, og kirkjunnar menn og aðrar stéttir létu sitt ekki eftir liggja.

Strjálbýli og veðurfar hafa að öllum líkindum komið í veg fyrir að útihátíðahöld næðu fótfestu á Íslandi á þessum árstíma en skemmtunin haldist innan veggja heimilanna, búanna. Eins og venjan á sprengidag gefur til kynna, saltkjöt og baunir í mál, hefur eitthvað verið gert til að breyta til í mataræði við upphaf föstu hér á landi. Þó ekki hafi tekist að rekja sögu þessara hefða langt aftur í tímann, má gera ráð fyrir að siðbreytingin hafi haft mikil áhrif á hvernig menn höguðu sér á lönguföstu og við upphaf hennar. Trúarleiðtogar mótmælenda lögðu minni áherslu á föstuna sjálfa og töldu hana koma illa við vinnusemi fólks sem var mikilvæg í augum þeirra. En jafn illa var þeim við kjötkveðjuhátíðarnar miklu, sem stóðu kannski í marga daga og gerðu fólk óvinnufært í fleiri daga á eftir.

Þótt hátíðleiki öskudagsins hafi minnkað og jafnvel horfið hér á landi við siðbreytinguna hélt fólk áfram að gera sér glaðan dag síðustu dagana fyrir lönguföstu og hér hafa þróast ýmsir siðir kringum bolludag, sprengidag og öskudag. Athyglisvert er að bolludagur (sem væntanlega fékk ekki nafnið fyrr en snemma á 20. öld) og öskudagur hafa að nokkru leyti skipt um hlutverk. Lengi vel var mánudagurinn í 7. viku fyrir páska hefðbundinn frídagur barna í skólum og þá tíðkaðist víða um landið að marséra í grímubúningum og að slá köttinn úr tunnunni, seint á 19. öld. Þeir siðir hafa væntanlega borist frá Danmörku eða Noregi. Árið 1917 hafði frídagurinn verið færður yfir á öskudaginn víðast hvar á landinu og siðirnir fluttust með. Að ?marséra? og slá köttinn úr tunnunni datt þó víðast hvar uppfyrir á 20. öld, en hélst þó við á Akureyri og hefur þaðan breiðst út á ný.

Önnur venja hefur flust frá öskudegi til bolludags en það eru flengingar með vendi. Eins og áður var minnst á var ösku dreift með einhvers konar vendi í kirkjum á öskudag í katólskum sið og guðhræddir menn flengdu sjálfa sig með vendi í iðrunarskyni. Við siðbreytinguna fluttust flengingarnar yfir á aðra sem skemmtun og börn tóku þær að sér á bolludaginn hér á Íslandi.

Ein er sú hefð tengd öskudeginum sem ekki finnst annars staðar en á Íslandi, en það er sú venja að hengja öskupoka á fólk. Kannski má rekja upphaf þess til katólskunnar og krafts öskunnar sem gjarnan var mögnuð með heilögu vatni. Sóttu menn í að taka ösku með sér heim úr kirkjum til að blessa heimilið. Þessi pokasiður þekkist á Íslandi allt frá miðri 18. öld, mögulegt er að heimild öld eldri greini frá sama sið. Hér skiptist pokasiðurinn lengi vel í tvennt eftir kynjum: konur hengdu öskupoka á karla en karlar poka með steinum á konur. Líklegt er að ólík kynjahlutverk og aðgengi að hlutum hafi þar skipt máli, en lykilatriði hjá báðum kynjum var að koma pokunum fyrir svo að fórnarlambið tæki ekki eftir því.

Snemma á 20. öld þróaðist öskupokasiðurinn í þá átt að verða nokkurs konar Valentínusarbréf. Ungar stúlkur sendu ungum piltum sem þeim leist vel á poka til að gefa áhuga sinn til kynna. Starfsmenn Vísindavefsins muna eftir úr sínu ungdæmi (sem ekki var fyrir svo löngu síðan!) að enn tíðkaðist að hengja öskupoka á fólk og þá var kynjaskiptingin horfin. Tilgáta Vísindavefsins er að breytingar á framleiðslu títuprjóna úti í heimi, svo þeir beygðust ekki jafn auðveldlega, hafi haft varanleg áhrif á pokasiðinn á Íslandi.
 
Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson og Vísindavefurinn.

02.02.2008 23:34

Imbolic eða KyndilmessaImbolic er 2.febrúar og er ein af átta hátíðum norna. Hún minnir okkur á að það styttist í vorið og að við fögnum því að birtuna er að aukast. Þetta er tími endurfæðingar og gróanda og hátið Brigidar sem er keltnesk gyðja tengd eldi. Hún er verndari skálda, smiða og heilara.

Þetta er tími til að hreinsa hjá okkur, taka til og henda út gömlum hlutum sem við notum ekki. Kveikja á kertum og lýsa upp heimilið og taka á móti birtunni sem fer vaxandi.

02.02.2008 22:59

KyndilmessaKyndilmessa er 2.febrúar og hefur gengið undir ýmsum nöfnum innan kirkjunnar. Eitt elst þeirra er hreinsunarhátíð blessaðrar Maríu meyjar (Purificatio beatae Mariae virginis) Samkvæmt Móselögum taldist kona óhrein í 40 daga eftir að hún hafði alið sveinbarn. Því gekk María með Jesúbarnið í helgidóminn fjörtíu dögum eftir fæðinguna til að láta hreinsast.

Gömul veðurtrú tengd Kyndilmessu kveður svo á ef sólskin er þennan dag viti það á snjóa seinna,

Ef í heiði sólin sést
á sjálfa kynilmessu
snóa vænta máttu mest
maður upp frá þessu.

02.02.2008 22:19

Febrúar annar mánuður ársins.Febrúar er annar mánuður ársins samkvæmt gregorísku dagatali. Og merkir eiginlega "hreinsunarmánuður". Hann var nefndur eftir Februa sem var hreinsunarhátíð sem haldin var í Róm 15. þess mánaðar. Nafnið er jafnframt tengt etrúskum guði undirheima og hreinsunar sem kallaðist Februus.

Etrúrar voru forn menningarþjóð sem byggði vesturhluta Ítalíu en leið undir lok þegar veldi Rómverja tók að eflast. Febrúar var upphaflega síðasti mánuður ársins hjá Rómverjum og er það talin skýringin á því að í honum eru færri dagar en öðrum mánuðum, og eins að einn dagur bætist við hann í hlaupárum.

Þó þetta sé stysti mánuðir ársins er heilmikið um að vera í þessum mánuði;

 • 2.febrúar er Imbolic/Kyndilmessa,
 • 4.febrúar er Bolludagur,
 • 5.febrúar er Sprengidagur
 • 6.febrúar er Öskudagur
 • 14.febrúar er Valentínusardagur
 • 23.febrúar er Þorraþræll,
 • 24.febrúar er Konudagur, jafnframt því að Góan hefst.
 • 29.febrúar er Hlaupársdagur.

Þrátt fyrir að enn sé vetur, ekki síst þessa dagana þá er þetta engu að síður sá mánuður þar sem jörðin og náttúran byrjað að vakna aftur til lífsins. Sólin er farin að sjást og daginn tekinn að lengja. Við finnum að þó enn sé snjór og umhleypingasamt og erfiðir mánuðir hugsanlega framundan, þá fer að styttast í vorið og birtuna.

25.01.2008 17:06

Nú er frost á fróni.


Þorraþræll


Nú er frost á Fróni,
frýs í æðum blóð.
Kveður kuldaljóð,
Kári´ í jötunmóð.
Yfir laxalóni
liggur klakaþil
hlær við hríðarbyl
hamragil.

Mararbára blá
brotnar þung og há
unnar steinum á
yggld og grett á brá.
Yfir aflatjóni
æðrast skipstjórinn.
Harmar hlutinn sinn
hásetinn.

Horfir á heyjaforðann
hryggur búandinn:
Minnkar stabbinn minn,
magnast harðindin.
Nú er hann enn að norðan,
næðir kuldaél
yfir móa´ og mel,
myrkt sem hel."

Bóndans býli á
björtum þeytir snjá.
Hjúin döpur hjá
honum sitja þá.
Hvítleit hingaskorðan
huggar manninn trautt:
Brátt er búrið autt,
búið snautt.

Þögull þorri heyrir
þetta harmakvein,
en gefur grið ei nein,
glíkur hörðum stein,
engri skepnu eirir,
alla fjær og nær
kuldaklónum slær
og kalt við hlær:

Bóndi minn, þitt bú
betur stunda þú.
Hugarhrelling sú
er hart þig þjakar nú,
þá mun hverfa´en fleiri
höpp þér falla í skaut.
Senn er sigruð þraut,
ég svíf á braut.

Þorri er fjórði mánuður vetrar í gamla norræna tímatalinu Þorri hefst í þrettándu viku vetrar (8 - 24. janúar miðað við Gregoríanska tímatalið) og alltaf á föstudegi.

Fyrsti dagur þorra er nefndur bóndadagur en þann dag var sú hefð að bóndinn hoppaði í kringum bæinn á nærhaldinu einu fata. Einnig var hefð að húsmóðirin færi út kvöldið áður og byði þorranum inn í bæ. Til eru heimildir um að betri matur hafi verið gefinn fyrstu daga þorra og góu, en nú hefur sú hefð komist á að hjón gefi hvort öðru blóm þessa daga. Síðasti dagur þorra er nefndur þorraþræll.

Þorri er nefndur í heimildum frá miðöldum sem persónugervingur vetrarins og þar er einnig minnst á þorrablót, en ekki er vitað um hvað þau snerust. Þorrablót eru svo tekin upp sem veislur "að fornum sið" undir lok 19. aldar
.

Svo segir í Fornaldarsögum Norðurlanda "Frá Fornjóti og hans ættmennum":

Fornjótr hét maðr. Hann átti þrjá sonu; var einn Hlér, annarr Logi, þriði Kári. Hann réð fyrir vindum, en Logi fyrir eldi, Hlér fyrir sjó. Kári var faðir Jökuls, föður Snæs konungs, en börn Snæs konungs váru þau Þorri, Fönn, Drífa ok Mjöll. Þorri var konungr ágætr. Hann réð fyrir Gotlandi, Kænlandi ok Finnlandi. Hann blótuðu Kænir til þess, at snjóva gerði ok væri skíðfæri gott. Þat er ár þeira. Þat blót skyldi vera at miðjum vetri, ok var þaðan af kallaðr Þorra mánaðr.
Þorri konungr átti þrjú börn. Synir hans hétu Nórr ok Górr, en Gói dóttir. Gói hvarf á brott, ok gerði Þorri blót mánuði síðar en hann var vanr at blóta, ok kölluðu þeir síðan þann mánað, er þá hófst, Gói. Þeir Nórr ok Górr leituðu systur sinnar. Nórr átti bardaga stóra fyrir vestan Kjölu, ok fellu fyrir honum þeir konungar, er svá heita: Véi ok Vei, Hundingr ok Hemingr, ok lagði Nórr þat land undir sik allt til sjóvar. Þeir bræðr fundust í þeim firði, er nú er kallaðr Nórafjörðr. Nórr fór þaðan upp á Kjölu ok kom þar, sem heita Úlfamóar, þaðan fór hann um Eystri-Dali ok síðan í Vermaland ok með vatni því, er Vænir heitir, ok svá til sjóvar. Þetta land allt lagði Nórr undir sik, allt fyrir vestan þessi takmörk. Þetta land er nú kallaðr Noregr.

01.01.2008 14:23

Rómversk mánaðarheiti


Mánaðarheitin sem við notum í dag eru komin frá rómverjum og eru efitrfarandi:

Janúar (Januarius) er nefndur eftir hinum tvíhöfða Janusi sem var rómverskur guð upphafs og enda auk þess sem hann var guð dyra og hliða. Janus var til dæmis tilbeðinn við upphaf mikilvægra áfanga í mannsævinni, svo sem við upphaf hjónabands eða fæðingu barns.

Febrúar (Februarius) merkir eiginlega 'hreinsunarmánuður'. Hann var nefndur eftir Februa sem var hreinsunarhátíð sem haldin var í Róm 15. þess mánaðar. Nafnið er jafnframt tengt etrúskum guði undirheima og hreinsunar sem kallaðist Februus. Etrúrar voru forn menningarþjóð sem byggði vesturhluta Ítalíu en leið undir lok þegar veldi Rómverja tók að eflast. -- Febrúar var upphaflega síðasti mánuður ársins hjá Rómverjum og er það talin skýringin á því að í honum eru færri dagar en öðrum mánuðum, og eins að einn dagur bætist við hann í hlaupárum.

Mars (Martius) var fyrsti mánuður ársins hjá Rómverjum og nefndur eftir stríðsguði þeirra, Mars. Rómverska heitið er ekki nafn guðsins óbreytt, heldur dregið af því. Það er ástæðan til þess að mánaðarheitið var skrifað með z ('marz') meðan z var notuð í íslensku, en heiti guðsins ekki.

Apríl (Aprillis) var helgaður ástargyðjunni Venusi. Ein skýring á nafni mánaðarins er sú að það sé dregið af nafni Afródítu sem samsvaraði Venusi í grískri goðafræði. Önnur skýring er sú að orðið apríl sé myndað eftir orðinu "aperire" sem þýðir "að opna" sem hugsanlega tengist þá því að þetta var mánuðurinn þegar brum tók að opnast.

Maí (Maius) er ýmist sagður nefndur eftir Maiesta, gyðju heiðurs og hefnda, eða eftir gyðjunni Maia sem var ein af sjö dætrum Atlasar er gerðar voru að stjörnum og birtast á haustin þegar uppskerutíð er nærri.

Júní (Junius) er líklega nefndur eftir gyðjunni Júnó sem samsvaraði Heru hjá Grikkjum. Hún var æðst gyðja Rómverja og verndari bæði Rómar og Rómarveldis. Sumar heimildir benda þó á að hugsanlega geti nafn mánaðarins verið tengt orðinu "iuniores" sem merkir ungir menn (juniors) og á sama hátt megi tengja "maiores" sem merkir fullorðnir menn (majors) við maí. Þessir tveir mánuðir hefðu þá verið helgaðir fullorðnum og ungum mönnum.

Júlí (Julius) er nefndur til heiðurs Júlíusi Sesar sem fæddist í júlí. Mánuðurinn fékk þetta nafn árið 44 fyrir Krist eða sama ár og Sesar var veginn. Júlí var einnig nefndur Quintilis sem þýðir fimmti mánuður enda var hann þá sá fimmti í röðinni hjá Rómverjum.

Ágúst (Augustus) er nefndur eftir Ágústusi, rómverska keisaranum sem ríkti á árunum kringum Krists burð. Áður var mánuðurinn nefndur Sextilis enda sjötti mánuður ársins hjá Rómverjum en nafninu var síðan breytt í það sem við þekkjum í dag.

September vísar í töluna sjö sem er septem á latínu enda var þetta sjöundi mánuður ársins.

Október kemur af latneska orðinu octo, átta.

Nóvember tengist latneska orðinu novem sem þýðir níu.

Desember var tíundi mánuður ársins hjá Rómverkjum en decem er tíu á latínu.

01.01.2008 13:59

Fingrarím eftir Þorstein Sæmundsson

Formáli

Það fræðsluefni um fingrarím sem hér er birt í tilraunaskyni, hefur ekki komið út í bókarformi til þessa. Þetta er safn greina sem ég samdi fyrir mörgum árum og birti í Almanaki Þjóðvinafélagsins (árin 1970, 1972 og 1976). Mér hefur verið bent á, að þessar gömlu greinar væru fæstum aðgengilegar og þyrfti því að gefa þær út á ný, til dæmis á Veraldarvefnum sem allur fjöldinn hefur nú aðgang að. Þessi ábending varð tilefni þeirrar samantektar sem hér fer á eftir. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á upphaflega textanum þar sem ástæða þótti til. Teikningarnar eru  óbreyttar, en þær gerði Gunnar Eyþórsson.
 

Inngangur

Það mun hafa verið síðla árs 1965, að til mín kom maður að nafni Konráð Árnason. Erindi hans var að biðja mig um staðfestingu á niðurstöðu sem hann hafði komist að. Niðurstaða sú snerti breytinguna sem varð þegar nýi stíll (gregoríanska tímatalið) tók við af gamla stíl (júlíanska tímatalinu). Til þess að ganga úr skugga um að gesturinn hefði á réttu að standa, fletti ég fyrst upp í einhverri fræðibók, en tók svo fram blað og blýant því að ég ætlaði mér ekki þá dul að fara að glíma við tímatalsþrautir með hugarreikningi einum saman. Undrun mín varð mikil þegar það kom í ljós að gesturinn studdist hvorki við blað né bók, heldur fingurna á höndum sér. Hér var kominn maður sem kunni þá fornu list, fingrarím, en þá list þekkti ég aðeins af afspurn og stóð reyndar í þeirri trú að hún væri löngu úrelt og í gleymsku fallin.

Þegar ég varð þess áskynja hve greiðlega Konráði gekk að leysa tímatalsþrautir á fingrum sér, vaknaði hjá mér áhugi á að kynna mér þessa list nokkru nánar. Reyndar veit ég ekki hvort úr því hefði orðið ef Konráð hefði ekki komið aftur í heimsókn skömmu síðar og fært mér að gjöf endurprentaða útgáfu af bók þeirri um fingrarím sem Jón Árnason Skálholtsbiskup gaf út árið 1739. Lét Konráð þau orð fylgja að sér léki forvitni á að vita hvort ég sæi ráð til að breyta svo einni helstu fingrarímsreglu Jóns, að hún gilti fyrir 20. öldina líka, en reglan hafði fallið úr gildi árið 1900. Þessa frýjun gat ég auðvitað ekki staðist, og þar sem jólahelgin fór í hönd, gafst mér brátt næði til að kynna mér fingrarímið.
 

1. mynd. Fingrarímsbók Jóns Árnasonar Skálholtsbiskups


Fingrarím Jóns biskups er fjörlega skrifuð bók og skemmtileg aflestrar. Mér segir svo hugur um að fleiri myndu lesa hana ef hún væri rituð með nútímaletri. Gotneska letrið er nú svo sjaldséð að menn hliðra sér hjá því að lesa það. Jón var fæddur 1665 og hefur því verið kominn yfir sjötugt þegar hann gaf út fingrarímsbókina. Grímur Thomsen segir reyndar í æviágripi Jóns (Tímarit Bmf. 1880, bls. 49), að Fingrarímið hafi komið út árið 1712, en það mun á misskilningi byggt því að orðalag í bókinni sýnir að hún er samin árið 1737.

Nafnið fingrarím hljómar undarlega í eyrum nú á dögum því að fæstir kannast við aðra merkingu í orðinu rím en þá sem tengd er samhljómun í kveðskap. Nafn eins og fingraalmanak myndi síður valda misskilningi þótt merkingin sé sú sama. Ef til vill hefur það ýtt undir misskilning að ýmsar minnisvísur ("rímvísur") voru notaðar með fingraríminu til að auðvelda mönnum að muna tiltekin atriði svo sem messudaga o.fl. Hið eiginlega fingrarím er þó laust við allan kveðskap.

Sú hugmynd að nota fingurna til tímatalsreiknings hlýtur að vera ævagömul. Tugakerfið í almennum talnareikningi minnir okkur á, að endur fyrir löngu notuðu menn sína tíu fingur til að telja og reikna. Hvað var þá eðlilegra en að menn reyndu að leysa tímatalsdæmi á fingrum sér. Frá því að sögur hófust hefur tímatal valdið mönnum erfiðleikum og heilabrotum, og um það hafa verið samdar ýmsar flóknar reglur. Að sumu leyti hefur þetta stafað af illri nauðsyn, því að hinar náttúrlegu tímaeiningar, dagurinn, tunglmánuðurinn og árstíðaárið, eru svo ósamstæðar sem raun ber vitni. En þar á ofan hafa menn svo íþyngt kerfinu að óþörfu með torskildum viðbótarreglum, sérstaklega reglum um helgihald. Er ekki að efa að þær reglur um páskahald og aðrar færanlegar kirkjuhátíðir sem settar voru á 4. öld hafa átt sinn þátt í að ýta undir þróun fingraríms hjá kristnum þjóðum. Mun notkun þess hafa farið vaxandi allt fram til þess tíma að prentuð almanök fóru að ná verulegri útbreiðslu, en það var ekki fyrr en á 16. öld. Þeir sem mesta stund lögðu á fingrarímið hafa eflaust verið klerkar og aðrir fræðimenn sem þurftu á því að halda í störfum sínum. Á Íslandi fékkst almúgafólk þó einnig við þessa list, og eftir því sem Jón biskup Árnason segir, kunni fjöldi manns með hana að fara hér á landi á 17. öld.

Þörfin fyrir fingrarímið minnkaði að sjálfsögðu þegar prentuð almanök komu til sögunnar. En það sem úrslitum réði var tímatalsbreytingin sem hófst á 16. öld og Gregoríus páfi 13. stóð að. Eftir þá breytingu var ekki lengur hægt að nota gömlu fingrarímsreglurnar, og voru menn því tilneyddir að gefa fingrarímið upp á bátinn eða semja nýjar reglur í samræmi við breytt tímatal. Slíkt var þó ekki auðhlaupið og bendir allt til þess að erlendir fræðimenn hafi heykst á þessu verkefni, enda var fingrarímið allflókið fyrir og varla bætandi á það aukareglum hins nýja stíls. Afrek Jóns biskups er í því fólgið að hann slítur sig að miklu leyti frá hinum eldri rímreglum og skapar nýtt fingrarím sem í senn samræmist nýja stíl og er miklu einfaldara en það fingrarím sem fyrir var. Í bók sinni gerir Jón ítarlegan samanburð á sínum reglum og hinum eldri, og eftir þann samanburð hlýtur lesandinn að fyrirgefa Jóni þótt hann sé eilítið drjúgur með sig á köflum.

Jón biskup hefur haft mjög góða þekkingu á tímatalsfræðum, og bók hans er traust grundvallarrit, auk þess sem hún er vel samin og aðgengileg kennslubók. Má vafalaust telja að mjög margir hafi numið fingrarímið af bók Jóns á 18. öld. Bókin var endurprentuð í Kaupmannahöfn 1838 og sá Þorsteinn Jónsson um útgáfuna. Um svipað leyti hófst reglubundin útgáfa íslenskra almanaka, og hefur þá vegur fingrarímsins farið minnkandi. Hin prentuðu almanök gengu líka að einu leyti í berhögg við reglur fingrarímsins því að þau færðu fyrsta vetrardag frá föstudegi yfir á laugardag. Sú ráðstöfun studdist við forn ákvæði sem finnast í Rímbeglu og líklega eru frá 12. öld, en enginn veit í rauninni hvort eða hvenær þau ákvæði hafa verið í heiðri höfð. Þótt mörgum þætti breytingin orka tvímælis, hlaut almanakið að ráða. Um aldamótin 1900 féll svo úr gildi ein helsta fingrarímsregla Jóns biskups, og eftir það mun lítið hafa kveðið að notkun fingrarímsins.

Það sem ritað hefur verið um fingrarím síðan Jón biskup leið er fremur lítið að vöxtum. Í grein eftir Guðmund Bergsson sem birtist í blaðinu Hauki á Ísafirði árið 1901 (bls. 17) er vikið að fingraríminu, og þá sérstaklega aðferðinni til að finna sunnudagsbókstaf. Í Skírnisgrein Guðmundar Björnsonar um íslenska tímatalið (1915, bls. 263) er einnig minnst á fingrarímið, en Guðmundur heldur þó meira fram reikniformúlum, sem hann telur auðveldari viðfangs. Árið 1939 kom út leiðarvísir um fingrarím eftir Sigurþór Runólfsson, sem einhverjir munu kannast við eftir sjónvarpsþátt um þetta efni. Leiðarvísir þessi er að mestu leyti byggður á fingrarími Jóns, en því miður gætir víða misskilnings sem dregur úr gildi ritsins.

Loks má nefna grein um fingrarím eftir Sigurð Daðason í Lesbók Morgunblaðsins árið 1930 (bls. 178) þar sem bent er á misræmi milli fingraríms og prentaðra almanaka á þessari öld. Vel má vera að meira hafi verið ritað um þetta efni, og væri mér þá þægð í að fá ábendingar um það. Hvað sem því líður er óhætt að segja að fingrarím Jóns Árnasonar hefur verið hið eina og sanna fingrarím í meira en tvö hundruð ár, og engar teljandi breytingar eða nýmæli hafa komið fram. Slíks er þó vissulega þörf, ef nokkur von á að vera til þess að endurvekja áhuga manna á fingrarími nú á dögum.

Einhver kynni nú að spyrja hvort nokkur þörf sé á því að endurlífga þessa gömlu aðferð þegar nóg er til af prentuðum almanökum. Þessu svarar Jón Árnason einmitt í inngangi bókar sinnar og gerir það á svo skemmtilegan hátt að engu þarf við að bæta. Hér skal aðeins minnt á að almanök eru ekki alltaf við hendina, jafnvel ekki almanak líðandi árs. Fáir hafa í fórum sínum almanök sem ná langt aftur í tímann, og almanök fram í tímann, meira en ár eða svo, eru sjaldséð. Þá er einnig að vissu leyti andleg fullnæging í því að geta leyst úr algengum spurningum um tímatal bókarlaust. Í stað fingraríms mætti auðvitað nota reikniformúlur. Fingrarímið er þó yfirleitt miklu fljótvirkara, nema því aðeins að notuð sé tölva sem mötuð hefur verið með viðeigandi forriti. Ef við tökum páskareikninginn sem dæmi, er vandalaust fyrir þjálfaðan mann að finna páska fyrir hvaða ár sem vera skal á einni mínútu með fingrarími, en að ná sama hraða með formúlum og reiknivél, án sérhæfðs forrits, er nánast ógerningur. Loks má ekki gleyma því að fingrarímið getur verið skemmtileg dægradvöl, ekki síður en krossgátur og önnur viðfangsefni sem menn grípa til þegar tóm gefst. 

Lifandi dæmi um notagildi einfaldrar minnisreglu er vísan "Ap, jún, sept, nó" sem séra Ólafur í Sauðanesi gerði, og birtist í Hólarímbókinni 1597. Þessi litla vísa hefur gengið manna á milli öld fram af öld og þykir gagnleg enn í dag þrátt fyrir öll almanökin. Það vill svo til að vísan á sér hliðstæðu í einfaldri fingrarímsreglu sem ýmsir munu eflaust kannast við þótt þeir þekki ekki til fingraríms að öðru leyti. Reglan er þessi: Mánaðanöfnin eru talin upp í röð. Við fyrsta nafnið, janúar, er vísifingur hægri handar lagður á ysta hnúann á vinstri hendi, sem haldið er krepptri eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Við annað nafnið, febrúar, er fingurinn færður yfir í millibilið milli ysta hnúans og þess næsta. Við þriðja nafnið, mars, er fingurinn færður á næsta hnúa. Þannig er haldið áfram þar til komið er á síðasta hnúann (júlí), en þá er byrjað aftur á fyrsta hnúa (með ágúst). Þegar að er gáð, sést að þeir mánuðir sem hafa 31 dag hafa allir lent á hnúunum, en styttri mánuðirnir (30 daga mánuðirnir og febrúar) hafa allir lent í millibilunum. Þessa aðferð hafa menn notað til að rifja upp dagafjölda hvers mánaðar, en hve gömul reglan er veit ég ekki. Hennar er ekki getið í fingrarími Jóns biskups.
 

2. mynd. Aðferð til að muna dagafjölda hvers mánaðar


Þær fingrarímsreglur sem lýst verður hér á eftir eru í ýmsum meginatriðum frábrugðnar aðferðum Jóns. Reglur þessar hafa orðið til smám saman á undanförnum árum eftir því sem ég hef komið auga á nýjar leiðir til að gera fingrarímið víðtækara eða auðveldara. Þeir sem kunna fingrarím Jóns munu kannast við kjarnann í sumum reglunum, en í öðrum hefur þróunin gengið svo langt að ekkert er eftir sem minnir á aðferðir Jóns. Sú þróun hefur þó venjulega orðið stig af stigi en ekki í einu stökki. Þess ber og að gæta, að Jón gerði sitt fingrarím þannig úr garði að það hentaði fyrst og fremst til notkunar á 18. öld, en þegar þetta er ritað er það 20. öldin sem sérstaklega verður að hafa í huga.

Útskýringunum hér á eftir mun ég reyna að haga svo, að lesandanum verði ljósar þær grundvallarorsakir sem liggja að baki hverrar reglu, þótt skýringarnar verði af þessum sökum nokkru lengri en ella hefði orðið. Þær reglur sem fjallað verður um eru sem hér segir:

         I. Regla til að finna vikudag hvers mánaðardags.
        II. Reglur til að finna tímamót í íslenska misseristalinu.
       III. Regla til að finna páska og aðrar hreyfanlegar kirkjuhátíðir.
       IV. Regla til að finna aldur tungls, þ.e. afstöðu þess til sólar.

Reglunum fylgja töflur sem gerðar hafa verið til samanburðar við fingrarímið.

Áður en lengra er haldið er rétt að benda á það, að fingrarímsreglumar mynda samtvinnaða heild. Þannig er t.d. reglan sem notuð er til að finna vikudag hvers mánaðardags mikilvægur liður í öðrum reglum, svo sem aðferðinni við að finna páskadag hvers árs. Sá sem aðeins vill kunna reglu til að finna vikudag hvers mánaðardags á tiltekinni öld, en kærir sig ekki um aðra þætti rímsins, gæti því fullt eins vel lært utanbókar þá tölulegu aðferð sem birtist í almanakinu á árunum 1966-1971 undir heitinu "Mánaðardagar og vikudagar". Sumir myndu jafnvel telja þá reglu auðlærðari þótt hún útheimti ofurlítinn hugarreikning. En sá sem hefur lært fingrarímsregluna til að finna vikudaga er jafnframt kominn vel á veg með aðrar reglur rímsins, og frá því sjónarmiði svarar fyrirhöfnin fyllilega kostnaði. 
 

Þ.S. nóv. 1999

Heimild http://www.almanak.hi.is/fingra.html

01.01.2008 13:43

Norræna tímatalið


Norræna tímatalið
er það tímatal sem notað var af Norðurlandabúum þar til júlíska tímatalið tók við sem almennt tímatal, og raunar lengur. Tímatalið og mánaðaheitin miðast við árstíðir sveitasamfélagsins og skiptast í sex vetrarmánuði og sex sumarmánuði. Það miðast annars vegar við vikur, fremur en daga, og hins vegar við mánuði, sem hver um sig taldi 30 nætur. Með þessum hætti hefjast mánuðirnir þannig á ákveðnum vikudegi, fremur en á föstum degi ársins.

Tímatalið

Talið í vikum

Árið var talið 52 vikur eða 364 dagar. Til þess að jafna út skekkjuna sem varð til vegna of stutts árs var skotið inn einni aukaviku, svokölluðum sumarauka, sjöunda hvert ár. Þannig var sumarið talið 27 vikur þau ár sem höfðu sumarauka, en 26 vikur annars. Í lok sumars voru tvær svonefndar veturnætur og var sumarið alls því 26 (27) vikur og tveir dagar. Allar vikur sumars hefjast á fimmtudegi, en vetrarvikurnar á laugardegi. Með þessu móti verður veturinn styttri en sumarið, eða 25 vikur og 5 dagar.

Talið í mánuðum
Í mánuðum taldist árið vera 12 mánuðir þrítugnættir og auk þeirra svonefndar aukanætur, 4 talsins, sem ekki tilheyrðu neinum mánuði. Þær komu inn á milli sólmánaðar og heyanna á miðju sumri. Sumaraukinn taldist heldur ekki til neins mánaðar en hann lenti á milli haustmánaðar og gormánaðar.

Í Íslendingasögum er algengt orðalag að tala um "þau missiri" þegar átt er við heilt ár, en orðið ár kemur hins vegar varla eða ekki fyrir þegar rætt er um tíma.

Norræna tímatalið hefur verið lífseigt að ýmsu leyti. Í Danmörku voru gömlu mánaðaheitin löguð að nýja tímatalinu og á Íslandi eru ýmsar hátíðir haldnar sem tengjast því.

Mánaðarheiti

Íslensku mánaðaheitin

 • Vetur: gormánuður, ýlir, mörsugur, þorri, góa, einmánuður
 • Sumar: harpa, skerpla, sólmánuður, heyannir, tvímánuður, haustmánuður

Dönsku mánaðaheitin

 • Vetur: slagtemåned, julemåned, glugmåned, blidemåned, tordmåned, fåremåned
 • Sumar: vårmåned, skærsommer, ormemåned, høstmåned, fiskemåned, sædemåned

Snorra-Edda

 • Vetur: gormánuður, ýlir eða frermánuður, mörsugur eða hrútmánuður, þorri, góa, einmánuður
 • Sumar: gaukmánuður, sáðtíð eða eggtíð eða stekktíð, sólmánuður eða selmánuður, heyannir, kornskurðarmánuður, haustmánuður

Hátíðir sem tengjast norrænu tímatali

 • Bóndadagur er fyrsti dagur þorra.
 • Þorrablót eru haldin á þorra.
 • Þorraþræll er síðasti dagur þorra.
 • Konudagur er fyrsti dagur góu.
 • Góugleði er haldin á góu.
 • Sumardagurinn fyrsti er fyrsti dagur hörpu.
 • Fyrsti vetrardagur er fyrsti dagur gormánaðar
 • Heimildir af wikipedia


   

  01.01.2008 12:42

  Janúar fyrsti mánuður ársins og ný byrjun.

                        
  Janúar er fyrsti mánuður ársins samkvæmt gregorísku dagatali en það er það tímatal sem við miðum við.
  Hann er kenndur við rómverska guðinn Janus, sem hefur tvö andlit og var verndari gatnamóta og hliða. Hann táknar nýtt upphaf og talið er að hann sé táknaðaru með tveimur andlitum v.þ.a. gatnamót og hurðir snúa í tvær áttir og hann horfir bæðir fram á við og aftur á við á sama tíma.
  Þetta er sá mánuður þar sem daginn er farið að lengja og sólinn vex ásmeginn, en er þó töluvert eftir að vetri ekki síst hér á norðurslóðum. Engu að síður sjáum við að ferðin inn í ljósið er hafin á ný.

  Samkvæmt gamla norræna tímatalinu  er nú Mörsugur og Þorrinn tekur við eftir miðjan janúar.

  Mörsugur er þriðji mánuður vetrar samkvæmt gömlu misseratali. Hann hefst miðvikudaginn í níundu viku vetrar á tímabilinu 21.-27. desember. Honum líkur á miðnætti fimmtudaginn í þrettándu viku vetrar á tímabilinu 19.-26. janúar. Þá tekur þorrinn við. Mánaðarheitið mörsugur er nefnt í svokallaðri Bókarbót sem er viðauki við rímtal frá 11. öld en varðveitt í handriti frá því um 1220. Í Eddu Snorra Sturlusonar er sami mánuður nefndur hrútmánuður. Þess getur t.d. Páll Vídalín í Skýringum við fornyrði lögbókar:
   Þriðji mánuður í vetri kemur miðvikudag; hann heitir í Bókarbót mörsugur, en í Eddu hrútmánuður; hann skal telja þrítugnættan, og enda fimtudag að aptni, þá er þorri gengur inn eptir sínum föstudegi. Þennan kallar séra Oddur Kristmánuð (bls. 575).

  Oddur sá sem nefndur er er séra Oddur Oddsson á Reynivöllum í Kjós. Mörsugur er sett saman úr orðunum mör 'innanfita í kviðarholi dýra' og sugur sem leitt er af sögninni sjúga, þ.e. 'sá sem sýgur mörinn'.
  http://www.lexis.hi.is/ordvikunnar/morsugur.html


  Samkvæmt gömlum heimildum voru mánaðanöfn á Íslandi til forna eftirfarandi:
  1. gaukmánuður/sáðtíð u.þ.b. 12. apríl - 11. maí
  2. eggtíð/stekktíð u.þ.b. 12. maí - 11. júní
  3. sólmánuður/selmánuður u.þ.b. 12. júní - 11. júlí
  4. miðsumar/heyannir u.þ.b. 12. júlí - 11. ágúst
  5. tvímánuður/heyannir u.þ.b. 12. ágúst - 11. september
  6. kornskurðarmánuður/haustmánuður u.þ.b. 12. september - 11. október
  7. górmánuður u.þ.b. 12. október - 11. nóvember
  8. ýlir/frermánuður u.þ.b. 12. nóvember - 11. desember
  9. jólmánuður/mörsugur/hrútmánuður u.þ.b. 12. desember - 11. janúar
  10. þorri u.þ.b. 12. janúar - 11. febrúar
  11. gói u.þ.b. 12. febrúar - 11. mars
  12. einmánuður u.þ.b. 12. mars - 11. apríl
  Nákvæm dagsetning er mismunandi eftir árum.

  Síðar þróuðust þessi nöfn í það sem við heyrum nú oftast talað um sem hin gömlu mánaðanöfn. Þau eru þessi:
  1. þorri hefst föstudag í 13. viku vetrar (19. - 26. janúar)
  2. góa hefst sunnudag í 18. viku vetrar (18. - 25. febrúar)
  3. einmánuður hefst þriðjudag í 22. viku vetrar (20. - 26. mars)
  4. harpa hefst sumardaginn fyrsta, fimmtudag í 1. viku sumars (19. - 25. apríl)
  5. skerpla hefst laugardag í 5. viku sumars (19. - 25. maí)
  6. sólmánuður hefst mánudag í 9. viku sumars (18. - 24. júní)
  7. heyannir hefjast á sunnudegi 23. - 30. júlí
  8. tvímánuður hefst þriðjudag í 18. viku sumars (22. - 29. ágúst)
  9. haustmánuður hefst fimmtudag í 23. viku sumars (20. - 26. september)
  10. gormánuður hefst fyrsta vetrardag, laugardag í 1. viku vetrar (21. - 28. október)
  11. ýlir hefst mánudag í 5. viku vetrar (20. - 27. nóvember)
  12. mörsugur hefst miðvikudag í 9. viku vetrar (20. - 27. desember)

  Heimild af vísindavefnum.

  22.12.2007 21:59

  Vetrarsólstöður

  Vetrarsólstöður eru í dag og þýðir það að í dag er stysti dagur ársins og lengsta nóttin. Eins og margir vita þá eru jólin gömul sólhvarfahátið og vetrarsólstöður/jól marka komu nýjja tíma þau eru endalok skammdegisins og boða lengri og bjartari daga.
  En þetta er tími til að koma saman með fjölskyldunni og vinum og gera sér glaðan dag, hver svo sem trúin er og kakan hér á eftir er góð á slíkum stundum.

  Ávaxtakaka

  Innihald:
  • 2 bollar hveitir
  • 1/2 bolli púðursykur
  • 1/4 tsk salt
  • 1/4 tsk múskat
  • 1 tsk kanill
  • 1 1/4 bolli þurrkaðir ávextir eftir smekk
  • 1/2 bolli rúsínur
  • 1/2 bolli valhnetur
  Aðferð:
  • 1/2 bolli olía, 1/2 bolli mjólk og 2 egg þeytt saman.
  • Þurrefnunum bætt út í og hrært vel saman.
  • Sett í bökunarform og 2 tsk af púðursykri stráð yfir.
  • Bakað í 90 mínútur við 180°C

  11.11.2007 13:08

  Marteinsmessa

  Marteinsmessa, 11. nóvember, er kennd við Martein biskup í Tours í Frakklandi. Hann var einn af helgustu miðaldadýrlingum hérlendis sem og erlendis. Talið er að Marteinsmessa hafi verið almennur samkomudagur, e.t.v. tengdur úthlutunum tíunda til þurfamanna.

  Marteinn var rómverskur hermaður en tók kristna trú og lét af hermennsku eftir að Jesús Kristur vitraðist honum í draumi. Hann varð frægur fyrir trúboð sitt og kraftaverk og varð á endanum biskup í Tours. Hann gekk undir nafninu thaumaturgus occidentis (kraftaverkamaður Vesturlanda).

  Til er helgisögn frá 12. öld af Marteini sem hermir að hann hafi falið sig í gæsakofa á flótta undan biskupstign, en hann mun hafa færst undan biskupstigninni framan af sökum lítillætis. Gæsirnar fældust og komu þannig upp um felustað hans og hann varð þá að taka við biskupsembættinu. Marteinn lét svo drepa allar gæsirnar til að ná fram hefndum og sá siður í Þýskalandi og á Norðurlöndum að borða gæsir á Marteinsmessu er þannig tengdur Marteini.

  Gæsaátið á Marteinsmessu á sér þó aðra sögu. Á miðöldum lauk reikningsárinu víða í Evrópu á Marteinsmessu og veisluhöld fylgdu gjarnan þessum skuldadögum. Á þessum tíma árs þóttu eldisgæsir tilbúnar til slátrunar og leiguliðar greiddu gjarnan leigu sína með Marteinsgæs.

  Nokkur dýrkun var á Marteini hérlendis þó svo að messa hans yrði slrei mikill helgidagur og ekki bar mikið á henni í daglegu lífi. Hann var þó verndari krikna á Hvanneyri og Melum í Borgarfirði og á Vörðufelli á Skeiðum. Hann vitraðist öllum helgum íslenskum mönnum, Þorláki, Jóni og Guðmundi.

  Heimild: Saga daganna eftir Árna Björnsson.  Nokkur atriði varnðandi heilagan Martein
  Tekin úr riti Ólafs H. Torfasonar um heilagan Martein.

 • Keltar höfðu heilagan Martein í sérstökum hávegum erlendis, líklega einnig paparnir og Írarnir hér á landi.

 • Forystumenn kristniboðs á Norðurlöndum tignuðu heilagan Martein sérstaklega.

 • Öflugasta ættin í frumkristnisögu Íslands var frá "Marteinsjörðinni" Haukadal.

 • Tíu Marteinskirkjur voru á Íslandi.

 • Saga heilags Marteins hefur varðveist í nokkrum íslenskum handritum.

 • "Marteinsklæðið" í Louvre-safninu í París er einn frægasti listgripur Íslandssögunnar.

 • Marteinsmessa 11. nóv. var einn helsti hátíðis- og viðmiðunardagur ársins.


  Frumkristni
  Sennilega hafa fáir dýrlingar verið hafðir í jafn miklum hávegum hér á landi í upphafi og heilagur Marteinn frá Tours. Tignun hans er líklega jafngömul sögu skráðrar byggðar í landinu. Þótt ekki séu um slíkt beinar heimildir má ráða þetta af sterkum líkum.

  Paparnir hafa sennilega verið Marteins-tignendur, enda var hann frumherji munklífis og einsetumunka í vestanverðri Evrópu. Heilagur Marteinn var þar að auki aðalfyrirmynd og árnaðarmaður heilags Patreks (um 390-460), trúboða og verndardýrlings Írlands. Hann sótti menntun sína til eins af Marteins-klaustrunum í Frakklandi og samkvæmt einni helgisögninni vann hann munksheit sín hjá heilögum Marteini.

  Fólk frá Suðureyjum og Skotlandi þekkti líka vel til tignunar heilags Marteins. Heilagur Ninian, "postuli" Skotlands kom í pílagrímsferð til Tours og stofnaði klaustur sitt í Whithorn eftir fyrirmynd klausturs heilags Marteins í Marmoutier í Frakklandi.

  Á Norðurlöndum höfðu tveir af öflugustu trúboðsforingjunum heilagan Martein í öndvegi umfram aðra dýrlinga.:

  Heilagur Ansgar (801-865) stjórnaði trúboðsferðum til Norðurlanda sem erkibiskup í Brimum og Hamborg. Hann var franskur, hafði menntast og starfað í Corbie nærri Amiens, einum aðalpílagrímastaðnum Marteinsdýrkenda og hafði heilagan Martein sem fyrirmynd í lifnaðarháttum og embættisfærslu.

  Ólafur Tryggvason Noregskonungur (d. 1000) stuðlaði að kristnitöku í Noregi, á Íslandi og Grænlandi. Hann fékk vitrun heilags Marteins í draumi nóttina eftir að hann kom til Noregs í fyrstu trúboðsferð sinni með Þangbrandi og öðrum prestum frá Bretlandseyjum. Lofaði heilagur Marteinn í draumnum að styðja Ólaf í trúboðinu gegn því að minni sitt væri drukkið í veislum í stað þess að skála fyrir heiðnum goðum. Reyndist sú liðveisla vel. Frásögnin um Martein er ekki í Heimskringlu Snorra Sturlusonar, sem í endursögnum sínum vinsaði margt trúarlegt úr, en Oddur munkur Snorrason lýsir þessu í sögu Ólafs sem hann ritaði í Þingeyraklaustri á 12. öld.

  Nær 600 ár voru liðin frá andláti heilags Marteins þegar kristni var lögtekin á Íslandi og þótt minning hans virðist hafa verið sterk í upphafi komst hann ekki í röð vinsælustu dýrlinganna. Niðurstaða bandarísku fræðikonunnar dr. Margaret Cormack um Marteinsdýrkun á Íslandi er þessi:

  "Heilagur Marteinn virðist hafa verið í talsverðum hávegum hafður hjá lærðum mönnum á Íslandi á síðari hluta 12. og í upphafi 13. aldar. - - - Þrátt fyrir sess í ritmáli virðist Marteinn ekki hafa notið útbreiddra vinsælda; aðeins ein kirkja af þeim sem ekki voru helgaðar honum átti mynd af honum og engin þeirra kirkna þar sem hann var með-dýrlingur átti myndir hans."

  The Saints in Iceland. Subsidia Hagiographica 78. Société des Bollandistes, Brussel 1994, 125.
  Haukadalur
  Kirkjan í Haukadal í Biskupstungum var Marteinskirkja. Heilagur Marteinn átti því jörðina samkvæmt þeirrar tíðar lögum.

  Haukdælir höfðu forystu um kristnitöku á sunnanverðu landinu og réðu lögum og lofum innan íslensku kirkjunnar fyrstu aldirnar. Tengsl þeirra við Marteinstignunina eru augljós.

  Hallur Þórarinsson í Haukadal var einn af fáum Íslendingum sem skírður var af Þangbrandi biskupi í trúboðsferð hingað á vegum Ólafs Noregskonungs. Hallur fóstraði síðan ættföður Haukdælanna, Teit Ísleifsson, en hann var sonur fyrsta Skálholtsbiskupsins.

  Teitur stofnaði einn fyrsta skóla landsins. Séra Hallur Teitsson, sonur hans, skrifaði ferðabók um Suðurlönd, Flos peregrinationes, sem nú er glötuð, og var sagður hafa verið í meiri metum í Róm en nokkur Íslendingur áður. Sagnaritarinn Ari fróði ólst upp hjá Teiti.

  Það vekur sérstaka athygli að sagt er að Teitur ættfaðir Haukdæla hafi látist á Marteinsmessu, 11. nóvember 1089.

  Ein frásögn frá Haukadal á 13. öld bregður ljósi á deilur um yfirráð kirkjujarða milli leikmanna og biskupa:

  Árni Þorláksson Skálholtsbiskup 1269-98 deildi við Klæng bónda í Haukadal um eignarhald og forráð á staðnum. Klængur ætlaði syni sínum rekstur jarðarinnar en Árni sagði prestinn þar eiga að fara með kirkjuhlutinn. Klængur vísaði þá til eignarhalds heilags Marteins með því að láta reka sex kýr og sextíu ær í rétt og segja: "Þetta fé greiði ég hinum sæla Marteini biskupi er kirkjudrottinn er hér í Haukadal." Lét hann svo marka skepnurnar syni sínum. Með þessu var Klængur að segja að þótt kirkjan gæti í orði kveðnu átt eignir og auðlindir staðarins væri það skylda og réttur veraldlegra umsjónarmanna að stjórna þeim og ráðstafa. Árni biskup stóð efnislega í sömu baráttu og heilagur Marteinn á sinni tíð í deilum um hvor væru æðri, kirkjuleg eða veraldleg yfirvöld.


  Marteinslaug í Haukadal
  Marteinslaug í Haukdal var ein kunnasta lækningalind Íslands á fyrri tíð. Var átrúnaður enn bundinn áhrifum hennar um miðja 18. öld eins og Eggert Ólafsson lýsti í Ferðabók sinni og Bjarna Pálssonar:

  "Er hún mikið notuð og í miklum metum hjá fólkinu þar. Sumir segja, að Marteinn biskup í Skálholti, annar biskup þar í lútherskum sið, hafi látið hlaða upp laugina, en aðrir halda því fram, að laugin hafi vegna jarteinar endur fyrir löngu verið helguð Marteini frá Tour, sem kunnur var um allt Ísland og svo vinsæll, að minni hans var til skamms tíma drukkið í öllum brúðkaupum og stórveislum. - Þá er og sagt, að vatnið sé gætt lækningamætti, og er nefndur til fjöldi manna, sem þar hafi hlotið heilsubót."

  Marteinslaug hefur verið spillt og fornum minjum þar, gufubaðshús reist yfir henni og vatn tekið til húshitunar fyrir Skógrækt ríkisins sem á jörðina.


  Biskupasögur
  Saga heilags Marteins frá um 400 var fyrirmynd að byggingu og innihaldi allra ævisagna dýrlinga sem ekki voru píslarvottar (játarasagna). Í þeim flokki eru sögur íslensku biskupanna þriggja sem tignaðir voru sem dýrlingar. Heilagur Marteinn blandast inn í þær allar.

  Saga Jóns helga Ögmundarsonar, biskups á Hólum 1106-1121:
  Í dómkirkjunni á Hólum í Hjaltadal var hluti af beini úr heilögum Marteini. Prestur kom "frá stað heilags Martini biskups" (Grenjaðarstað í S.Þing.), "biðjandi lítillátlega hinn heilaga Jón partera sér nokkuð af heilögum dómum sæls Martini, er þar voru á staðnum". Klofnaði síðan beinið af sjálfu sér í tvo hluta og var minni hlutinn gefinn Grenjaðarstað.
  Í Jarteinaþætti Jóns sögu er sagt frá kraftaverki sem heilagur Marteinn virðist eiga þátt í.

  Saga Þorláks helga Þórhallssonar, biskups í Skálholti 1178-1193:
  Áður en Þorlákur helgi varð biskup dreymdi hann á Þingvöllum að hann bæri höfuð heilags Marteins af alþingi til búðar sinnar. Var það túlkað þannig að hann mundi líka verða biskup.
  Þorlákur helgi líktist heilögum Marteini í því að fara ekki að nauðsynjalausu úr klaustri sínu, vera fámáll og hafa sig lítið í frammi vegna biskupskjörs. Eftir vígslu til Skálholts hélt hann áfram munkasið í klæðnaði og lifnaðarháttum eins og heilagur Marteinn á sinni tíð.

  Saga Guðmundar góða Arasonar, biskups á Hólum 1203-1237:
  Guðmundur líktist heilögum Marteini í framkomu, miskunnaði sig yfir þurfamenn og blessaði lindir. Presti þótti bein Jóns Ögmundarsonar ekki heilaglegt í útliti en Guðmundur spurði "hvort hann tryði Martein biskup óhelgari en aðra menn, af því að bein hans voru dökk."
  Í Guðmundar sögu eftir Arngrím ábóta Brandsson segir að "öfundarkveikja" í hans garð hafi lifnað á sama hátt og gagnvart heilögum Marteini: "meir í fyrstu af kennimanna hálfu en leikvaldi "
  Keimlíkar eru frásagnir af Guðmundi góða og heilögum Marteini vegna fiskveiða. Bóndi taldi örvænt um fisk úr veiðivatni á hvítasunnu en Guðmundur sagði: "Svo mun standa, að sæll Martinus lét veiða sér fisk til borðs á fyrsta páskadag, og því sýnist mér þetta mega gera, er biskup býður. Bóndinn veiddi síðan vænasta fisk.
  Eins og heilagur Marteinn vildi Guðmundur láta leggja mold undir sig á dánarbeði: "Hér má nú sjá á sínum síðustu tímum annan Martinum. Var og í þeirra lífi heilli sæmd hins sæla Martini stórlega margt samkvæmilegt, lítillæti, hreinlífi, fátækt og píslarvætti með alls kyns harðlífi og bindindi."

  Kirkjur
  Tíu sóknarkirkjur voru helgaðar heilögum Marteini á Íslandi í kaþólskum sið.

  Kirkjur þar sem heilagur Marteinn var aðaldýrlingur:
  1 - Grenjaðarstaður í Aðaldal, sem átti m.a. helgan dóm heilags Marteins (kirkjan átti líka gripi tengda Maríu mey, Nikulási, Pétri, Vincentíusi, Þeódórusi, Agötu og postulunum)
  2 - Haukadalur í Biskupstungum (einnig helguð Maríu mey, Andrési og Barböru og átti gripi tengda Þorláki)
  3 - Hof í Goðdölum (helguð Marteini einum)
  4 - Möðruvellir í Eyjafirði (átti líka gripi tengda Maríu mey)
  5 - Narfeyri (Eyri) við Álftafjörð, Snæfellsnesi (átti líka gripi tengda Maríu mey, Lárentsíusi og Þorláki)
  6 - Marteinstunga (Sóttartunga) í Holtum (átti líka gripi tengda Maríu mey)

  Kirkjur sem voru helgaðar Marteini ásamt öðrum:

  7 - Bær í Borgarfirði (aðaldýrlingur Ólafur, aðrir voru María mey, Pétur, Agnes og Maurice)
  8 - Hvanneyri í Borgarfirði (aðaldýrlingur María mey, aðrir voru Pétur, Tómas Becket, Ólafur og Þorlákur)
  9 - Melar í Borgarfirði (ásamt Maríu mey, Pétri, Andrési, Stefáni, Ólafi, Lárentsíusi, Nikulási, Þorláki, Agötu, Lúsíu, Margréti, 11.000 meyjum og öllum heilögum. Óvíst er um aðaldýrling)
  10 - Vörðufell (Fjall) á Skeiðum (hálfkirkja) (ásamt Maríu mey, Pétri, Ólafi og Gallusi)
  11 - Viðeyjarklaustur. Heilagur Marteinn var meðdýrlingur norðuraltarisins. 

  Kirkjugripir:
  Helgir dómar heilags Marteins (bein, beinflísar) voru sagðir vera í kirkjunum á Grenjaðarstað í Aðaldal og Hólum í Hjaltadal.
  Útsaumað altarisklæði með 12 myndum úr ævi heilags Marteins var lengi á Grenjaðarstað í S.-Þingeyjarsýslu. Paul Gaimard flutti klæðið úr landi 1836 og er það á Louvre-safninu í París.
  Mynd heilags Marteins (eða líkneski) áttu sex fyrsttöldu kirkjurnar að framan og auk þess Vallanes í S.-Múlasýslu.
  Útsaumað altarisklæði frá Draflastöðum, gert á 16. öld, hefur efst í vinstra horni mynd af Jóhannesi skírara með heilögum Marteini.
  Altarismynd með þremur atvikum úr ævi heilags Marteins var á Möðruvöllum í Eyjafirði, talin smíðuð í Bergen á fyrstu áratugum 14. aldar.

  Marteinsmessa
  Marteinsmessa 11. nóvember var í kaþólskum sið "löghelgur dagur" og skylt að halda hana hátíðlega.
  Í Grágás, lagasafni þjóðveldisaldarinnar (gilti frá fyrri hluta 12. aldar fram á síðari hluta 13. aldar) er Marteinsmessa ein af aðalhátíðum ársins.
  Marteinsmessan virðist hafi verið samkomudagur til ýmissa hluta. Á 13. öld er þess getið að lagabálki hafi verið játað "að Marteinsmessu". Ef til vill var tíund til þurfamanna úthlutað í sambandi við daginn, hugsanlega með matargjöfum, en slíku framlagi átti í síðasta lagi að vera lokið fyrir Marteinsmessu. Líklegt er að fólk hafi þá gert sér glaðan dag sem samrýmist hefðum um hátíðir í Evrópu.
  Í Skarðsárannál frá árinu 1586 er ein dagsetningin nefnd "Marteinsvaka" og kann að vísa til þess að gleðskapur hafi farið fram, sbr. Ólafsvaka í Færeyjum, sem kennd við Ólaf helga Haraldsson Noregskonung.
  Marteinssaga
  Á íslensku hafa varðveist þrjú miðaldahandrit með Marteins sögu. Þótt kaflaskipting, atburðir og röð séu víðast eins er efnis- og orðalagsmunur nokkur. Sögurnar eru aðallega þýðingar og endursagnir á verkum Sulpiciusar, samtímamanns og kunningja heilags Marteins frá fjórðu og fimmtu öld.
  Sögurnar voru prentaðar undir heildarnafninu "Martinus saga byskups" í Heilagra manna sögum í Kristianíu (Osló) 1877. Þær eru:
  Frá fyrri hluta 13. aldar: S[aga] Martini episcopi ( AM 645, 4to).
  Frá um 1400: Marteins saga (AM 235, fol.).
  Frá fyrri hluta 15. aldar: Saga ens helga Martinus erkibyskups, (SKB, Perg. fol. nr. 2).
  Auk þess er til óútgefið handritsbrot frá upphafi 14. aldar (AM 655, 4to, XXXI).
  Marteinsminni
  Heilagur Marteinn er verndardýrlingur þeirra sem framleiða og fara með vín. Algengasta tákn hans er bikar.

  Eftir því sem Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson greina frá í Ferðabók sinni var alltaf byrjað á því að drekka minni heilags Marteins í stórveislum á Íslandi, ekki síst brúðkaupsveislum, allt fram á miðja 18. öld. Var talað um Marteinsminnið sem "gott upphaf".

  Í Konungsbókhlöðu í Stokkhólmi er íslenskur handritshluti slíks Marteinsminnis og virðist með því eiga að hindra að allt fari úr böndum þótt áfengis sé neytt:

  "- hans minni skyldi fyrst drukkið vera þar sem öl væri upp skenkt eða minni inn borin, þá skal hans minni fyrst inn syngjast í hverri samkundu. Þann blessaða biskup skulum vér þess biðja að hann hefti svo sviksamlegar snörur fjandans fyrir oss sem hann tafði tungu í þeim mönnum sem töluðu í móti hinum blessaða Ólafi kóngi Tryggvasyni þá er hann boðaði rétta trú af sjálfum Guði."

  Marteinsminni þessu lýkur svo:

  "Verum þess kátari sem kjallarinn er votari en þess blíðari sem meyjarnar eru fríðari. En til þess megið þér ætla að fleira fylgir Martinus minni en fagrir lofs söngvar, en gott upphaf hefur jafnan góðan enda. Verum málkátir og hæfilátir en víst eigi ofsakátir. Gleðji maður mann en Guð og sankti Martinus gleðji oss alla saman, sitjið í guðs friði."

  Líkt Marteinsminni er til í handriti frá 1500-1550 með átta ræðum til að halda í brúðkaupsveislum. Þar segir:

  "Vér skulum fara með sancte Martinus minni sem góður og gamall vani er til. Vér skulum taka með hornunum og tóna upp vísurnar hratt og ríflega, fljótt og fimlega, skjótt og sköruglega, vera málkátir og vísukátir, en víst eigi skræmukátir. Vér skulum fara með sancte Martinus minni sem vel siðaðir menn. Þeir, sem vasklega drekka, sæma minnið og syngja upp vísurnar, dvelja svo daginn að drekka af í einu með hjarta hreinu, hvelfa að sér hornunum, en halda uppi stiklunum, eyða svo ölinu að einskæla hornið. Bjóða eigi byrlurunum fyrr en tómt er.28 Verum þess kátari sem kjallarinn er votari og þess kerskari sem drykkurinn er ferskari og þess blíðari sem kvinnurnar eru fríðari. Gleðji maður mann, en Guð oss alla."
  Marteinn Lúther
  Minning heilags Marteins hélst víða sterk lengur en annarra dýrlinga eftir siðaskiptin því Marteinn Lúther hét eftir honum, enda fæddur 10. nóvember, en á þeim degi var Marteinsvakan.

  Svo var oft látið heita að Marteinsminni væri drukkið til að heiðra klerka og kennimenn og þá tengt Marteini Lúther. Í handritum frá síðasta hluta 17. aldar segir: 
  "Göfuglegt minni gefst oss nú til handa, það köllum vér Marteins minni, hver að var einn andlegur faðir fullrar trúar, loflegs lifnaðar og margra manndáða. Er hér innifalið að vér minnumst allra annarra andlegra feðra og og forstjóra fríðrar Guðs kristni, blíðra biskupa, klerka og kennimanna utan lands og innan um allan kristindóminn, einkum þess merkilega guðsmanns Doctoris Martini Lutheri, hvern Guð uppvakti af djúpum villudómsins svefni, að kveikja það klára guðspjalls ljós hvert að nú geislar í guðsbarna hjörtum" - " Höldum nú minnið með heiðarlegri skemmtan og ráðvandri röggsemd, sómir það öllum að syngja lofvers fyrir sæla Marteins minni, einkum klerkum og karlmönnum. Kvinnum og meyjum leyfist hvort þær vilja, en ég áminni alla þá sem ei vilja sjálfir syngja einhvern til þess annan fá ellegar vítin pyngja."

  Í öðru Marteinsminni frá 17. öld segir m.a.:

  "Guðs vinar minni kemur oss nú til handa, það köllum vér Martinus minni. Byrjar öllum það að meðtaka í þessu sinni, hann kallast meistari kennimanna, sökum margfaldra mildiverka og mætra eftirdæma traustrar trúar og loflegs lifnaðar, þar fyrir skulu menn þessa minning halda með skikkanlegri skemmtan og gleði góðmannlegri, ölvísum vænum og virðulegum drykkjupörum, höfum í þessu sinni, sem við öll önnur minni, er hér hafa menn drukkið inni."
  Þjóðtrú, þjóðhættir og örnefni

  Alkunn veðurvísa:

  Á Marteinsmessu ef mundi loft
  meður regni, eg segi,
  veðradimmur verður oft
  vetur frá þeim degi.

  Rigning á Marteinsmessu 11. nóv. var samkvæmt þjóðtrúnni talin forspá um slæm veður veturinn sem fór í hönd en heiðríkja boðaði staðviðri.

  Stundum var skammdegið skilgreint sem tíminn milli Marteinsmessu 11. nóv. og kyndilmessu 2. feb., sem spannar nálægt sex vikur á undan og sex vikur á eftir vetrarsólstöðum.

  Marteinsmessudagurinn 11. nóvember var á Vesturlandi kallaður hrútamessa því um það leyti er skylt að færa hrúta frá ám til að forðast of brátt lambfang og einnig ráðlegt að taka þá á gjöf.

  Mannsnafnið Marteinn kemur fyrst fyrir á Íslandi í lok 12. aldar þegar Marteinn Brandsson er nefndur í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar.
  Í Biskupasögum segir frá því að Möðruvellingurinn Þorleifur Grímsson hafi tignað heilagan Martein og máltæki hans verið: "Guð og hinn mildi Martinus sé lofaður, hann gefur oss nógu gott."
   
  Marteinstunga (Sóttartunga) er bær og kirkjustaður í Holtum á Suðurlandi.

  Heimildir: Heilagur Marteinn frá Tours. Reykjavík 1995, eftir Ólaf H. Torfason

 • 01.11.2007 20:06

  Allraheilagramessa

  Day of the DeadAllraheilagramessa er 1.nóvember og þá er sameiginlegur minningardagur píslavotta og messudagur þeirra fjölmörgu helgu manna sem ekki eiga sér eigin messudag.

  En eftir því sem helgum mönnum fjölgaði sem látið höfðu líf sitt fyrir trú sína á Jesúm Krist, varð erfiðara að koma þeim öllum fyrir í dagatalinu og minnast þeirra í guðsþjónustu eins og gert var ráð fyrir í upphafi kristinnar kirkju. Því varð þrautarráð að helga þeim einn dag sameiginlega.

  Allraheilagramessa var ein af helgustu hátíðum íslensku kirkjunnar og var hún ekki afnumin sem helgidagur fyrr en árið 1770. Einnig hafði þessi dagur þá sérstöðu að samkvæmt Grágás var bændum skylt að gefa fátækum sem svaraði einum kvöldverði hjú a sinna þann dag auk tveggja imbrudaga. Þessum mat skyldi skipt á milli fátækra á hreppsamkomu.

  Heimilidir fengnar úr Sögu daganna eftir Árna Björnsson.

  27.10.2007 18:39

  Samhain og matur og ýmislegt fleira

  Þegar samhain er framundan þá hreinsum við til á heimilinu sem og í tilfinninga og andlega lífinu. Við sópum heimili okkar og hendum gamla sópnum út og fáum okkur nýjan. Nýji sópurinn er til að færa gæfu og til að koam í veg fyrir að óheppni fylgi okkur inn í nýja árið.
  Þetta er tími til að gera upp skuldir, losa okkur við það sem er gamalt og úrhelt. Gera við bilaða hluti eða losa okkur við þá. Taka til í skápum og grisja í gegnum þá.

  Gamall siður tengdur þessari hátíð var að kveikja varðelda en við okkar aðstæður og nútímaumhverfi á það tæpast við. Þess í stað er hægt að kaupa ný kerti og kveikja á þeim.

  Til að losa okkur við gamlar tilfinningar og særindi er hægt að skrifa það niður á blað og hugleiða á það og hvernig þú vilt losa þig við slæma ávana og kveikja síðan í blaðinu af því loknu.

  Ýmsar matartegundir eru tengdar Samhain, þar á meðal kjöt fyrir þá sem það borða. Rótargrænmeti, epli, hnetur, grasker, eplacider og jurtate og einnig kökur fyrir þá sem eru látnir. Þá eru útbúnar litlar hvítar kökur. Hver kaka er svo tileinkuð látnum ættingjum eða lönguliðnum forfeðrum og þessu fleiri kökur sem þú borðar þessu meiri blessunar muntu njóta.

  Celtic families marked the end of the harvest...

  Halloween and the Celtic Samhain

  DIANE MACLEAN

  , man's response was clear. Fire! Light! Illuminate the dark and cast out the shadows. Banish the witches and warlocks with ritual and rite. Druids built fires, disguising themselves in order to confuse and baffle the evil spirits. They scooped out turnips an

  HALLOWEEN, or All Hallows Eve, is the time when we remember every saint who hasn't been given their own day. Well, that is certainly how our Christian churches would want us to honour the last day of October. But for many, Halloween is all about guising, turnip lanterns and dooking for apples - which on the face of it doesn't seem to have much to do with saints.

  That's because long before Christianity reached our shores, Halloween was known by the older, darker and altogether more mystical name of Samhain.

  Samhain is the time when the sun is furthest south of the equator. Ancient Celts considered it to be the beginning of their new year and the death of the old. It was a time of celebration, to give thanks for the summer harvest and to ask a blessing for the coming months.

  Samhain was not just about year's end and the coming of winter. It was also the feast of the dead, the season of the earth's decay when evil was held to wander the planet. The shield of the female warrior Skathcach was lowered, and the barrier between the two worlds faded. The forces of chaos invaded our globe, and the world of the living joined with the world of the dead

  With so much evil pricking the nightd fashioned them into skulls and placed them, lit, around their fire to keep evil at bay.

  Water and apples were important to the ritual, evoking as they did the druid water rite of travelling across the worlds to the Celtic otherworld where the apple tree with magical fruit awaited - the passage to apple-land (Avalon).

  Waiting at the periphery were the everyday Celts, who had put out their own fires in preparation and now awaited the pure, safe fire from the smoking embers of their druid's consecrated pyre. When the ritual was complete, they crept forward and took home the new fire to re-light their own domestic hearths and gain safety for the coming year.

  Hundreds of years later bonfires were still being lit to ward off evil spirits and appease the Gods. As late as the 19th century, villagers were lighting their bonfires in a ritual reminiscent of the ancient druids. In Braemar they fetched torches from the fire and circled the fields to ward off evil and ensure fertility during the coming year.

  It is not just the lighting of bonfires that sounds vaguely familiar. Although the Church overlaid their own religious day on an existing pagan ceremony, they were not as successful as hoped in eradicating old rituals. They are still there, hidden beneath the ballyhoo of Halloween.

  So the next time you go out guising, give a nod of remembrance to your disguised druidic ancestor. As you dook for apples, think of their ordeal by water and their journey to the apple-land. And as you light up your turnip (or pumpkin) lantern, dare a quick glance over your shoulder and check that the spirits are being kept at bay. Not that you believe in any of that old rubbish, oh no, but have a look all the same. Just in case.
  http://heritage.scotsman.com/diagrams.cfm?cid=2&id=41692005


  You Call It Hallowe'en... We Call It Samhain

  Author: Peg Aloi
  Posted: October 22nd. 2007
  Times Viewed: 150,932

  Hallowe'en has its origins in the British Isles. While the modern tradition of trick or treat developed in the U. S., it too is based on folk customs brought to this country with Irish immigrants after 1840. Since ancient times in Ireland, Scotland, and England, October 31st has been celebrated as a feast for the dead, and also the day that marks the new year. Mexico observes a Day of the Dead on this day, as do other world cultures. In Scotland, the Gaelic word "Samhain" (pronounced "SAW-win" or "SAW-vane") means literally "summer's end."

  This holiday is also known as All Hallows Eve ("hallow" means "sanctify"); Hallowtide; Hallowmass; Hallows; The Day of the Dead; All Soul's Night; All Saints' Day (both on November 1st).

  For early Europeans, this time of the year marked the beginning of the cold, lean months to come; the flocks were brought in from the fields to live in sheds until spring. Some animals were slaughtered, and the meat preserved to provide food for winter. The last gathering of crops was known as "Harvest Home, " celebrated with fairs and festivals.

  In addition to its agriculture significance, the ancient Celts also saw Samhain as a very spiritual time. Because October 31 lies exactly between the Autumnal Equinox and the Winter Solstice, it is theorized that ancient peoples, with their reliance on astrology, thought it was a very potent time for magic and communion with spirits. The "veil between the worlds" of the living and the dead was said to be at its thinnest on this day; so the dead were invited to return to feast with their loved ones; welcomed in from the cold, much as the animals were brought inside. Ancient customs range from placing food out for dead ancestors, to performing rituals for communicating with those who had passed over.

  Communion with the dead was thought to be the work of witches and sorcerers, although the common folk thought nothing of it. Because the rise of the Church led to growing suspicion of the pagan ways of country dwellers, Samhain also became associated with witches, black cats ("familiars" or animal friends), bats (night creatures), ghosts and other "spooky" things...the stereotype of the old hag riding the broomstick is simply a caricature; fairy tales have exploited this image for centuries.

  Divination of the future was also commonly practiced at this magically-potent time; since it was also the Celtic New Year, people focused on their desires for the coming year. Certain traditions, such as bobbing for apples, roasting nuts in the fire, and baking cakes which contained tokens of luck, are actually ancient methods of telling fortunes.

  So What About Those Jack-O-Lanterns?

  Other old traditions have survived to this day; lanterns carved out of pumpkins and turnips were used to provide light on a night when huge bonfires were lit, and all households let their fires go out so they could be rekindled from this new fire; this was believed to be good luck for all households. The name "Jack-O-Lantern" means "Jack of the Lantern, " and comes from an old Irish tale. Jack was a man who could enter neither heaven nor hell and was condemned to wander through the night with only a candle in a turnip for light. Or so goes the legend...

  But such folk names were commonly given to nature spirits, like the "Jack in the Green, " or to plants believed to possess magical properties, like "John O' Dreams, " or "Jack in the Pulpit." Irish fairy lore is full of such references. Since candles placed in hollowed-out pumpkins or turnips (commonly grown for food and abundant at this time of year) would produce flickering flames, especially on cold nights in October, this phenomenon may have led to the association of spirits with the lanterns; and this in turn may have led to the tradition of carving scary faces on them. It is an old legend that candle flames which flicker on Samhain night are being touched by the spirits of dead ancestors, or "ghosts."

  Okay, What about the Candy?

  "Trick or treat" as it is practiced in the U. S. is a complex custom believed to derive from several Samhain traditions, as well as being unique to this country. Since Irish immigrants were predominantly Catholic, they were more likely to observe All Soul's Day. But Ireland's folk traditions die hard, and the old ways of Samhain were remembered. The old tradition of going door to door asking for donations of money or food for the New Year's feast, was carried over to the U. S. from the British Isles. Hogmanay was celebrated January 1st in rural Scotland, and there are records of a "trick or treat" type of custom; curses would be invoked on those who did not give generously; while those who did give from their hearts were blessed and praised. Hence, the notion of "trick or treat" was born (although this greeting was not commonly used until the 1930's in the U. S.). The wearing of costumes is an ancient practice; villagers would dress as ghosts, to escort the spirits of the dead to the outskirts of the town, at the end of the night's celebration.

  By the 1920's, "trick or treat" became a way of letting off steam for those urban poor living in crowded conditions. Innocent acts of vandalism (soaping windows, etc.) gave way to violent, cruel acts. Organizations like the Boy Scouts tried to organize ways for this holiday to become safe and fun; they started the practice of encouraging "good" children to visit shops and homes asking for treats, so as to prevent criminal acts. These "beggar's nights" became very popular and have evolved to what we know as Hallowe'en today.

  What Do Modern Witches Do at Hallowe'en?

  It is an important holiday for us. Witches are diverse, and practice a variety of traditions. Many of us use this time to practice forms of divination (such as tarot or runes). Many Witches also perform rituals to honor the dead; and may invite their deceased loved ones to visit for a time, if they choose. This is not a "seance" in the usual sense of the word; Witches extend an invitation, rather than summoning the dead, and we believe the world of the dead is very close to this one. So on Samhain, and again on Beltane (May 1st), when the veil between the worlds is thin, we attempt to travel between those worlds. This is done through meditation, visualization, and astral projection. Because Witches acknowledge human existence as part of a cycle of life, death and rebirth, Samhain is a time to reflect on our mortality, and to confront our fears of dying.

  Some Witches look on Samhain as a time to prepare for the long, dark months of winter, a time of introspection and drawing inward. They may bid goodbye to the summer with one last celebratory rite. They may have harvest feasts, with vegetables and fruits they have grown, or home-brewed cider or mead. They may give thanks for what they have, projecting for abundance through the winter. Still others may celebrate with costume parties, enjoying treats and good times with friends. There are as many ways of observing Samhain as there are Witches in the world!


   

  27.10.2007 17:22

  Fyrsti vetrardagur  Fyrsti vetrardagur er í dag og í gær var fullt tungl. Í gömlu tímatali var þetta kallað Hunter´s Moon eða veiðmannatungl og einnig kallað Blood Moon eða rautt tungl. Nafngiftin kemur til að þetta var sá tími sem veiðmenn veiddu fyrir veturinn.

  Að forníslensku tímatali hefst vetur á laugardegi eftir að 26.viku sumars lýkur en að lokinni 27.viku í sumaraukaárum. Þar sem sumar hefst á fimmtudegi enda sumarvikur á miðvikudegi. Því voru tveir aukadagar á milli sumarloka og upphafs vetrar. Þeir voru kallaðir vetrarnætur.

  Fyrsti vetrardagur eða vetrarnætur munu hafa verið samkomu og veislitími hjá norrænum mönnum á miðöldum, enda var þá til gnótt matar og drykkju eftir uppskeru og sláturtíð.

  Vetrarnáttboð og leikar koma víða fram í íslendingasögum. Snorri goði, Ólafur pá, Ósvífur, Gísli Súrsson, Gunnar og Njáll og fleiri mætir menn halda haustboð að veturnóttum.

  Síðar þegar kaþólska kirkjan tekur við þá gerist það sama hér og annar staðar að gömlum hátíðum er gefið kristið yfirbragð og fyrsta meiri háttar kristileg hátíð eftir vetrarbyrjun er allraheilagramessa 1.nóvember. Hér verður sama þróun að í þeim löndum þar sem haldið var upp á Samhain að þeirri hátíð var gefið kristilegt yfirbragð eftir að krisni tekur yfir.

  Talið er að Sviðamessa hafi verið tengd allraheilagramessa, þessu eru að vísu ekki allir sammála. En hvað um það þá var kjöt og innmatur fyrst hirt í sláturtíð því hvorutveggja var hættara við skemmdum en sviðum. Þau voru látin eiga sig uns gafst tími til að svíða þau og sjóða. Þá var haldiðn mikil veisla með nýjum sviðum áður en afgangurinn var settur í súr eða reyktur og kallaðist sviðamessa.

  Annað tengd vetrarkomunni er að venja var að spá í veðrið sem eðlilegt er í þjóðfélagi sem var jafn háð veðri og íslendingar voru. Horft var í atferli dýra og talið var vita á harðan vetur ef hagamýs grófu snemma holur, drægju að sér forða eða leituðu heim til bæja.

  Eins þótti það ekki góður fyrirboði ef snjótittlingar eða aðrir spörfuglar hópuðust snemma heim að bæjum. Mikill vargagangur í hröfnum þótti boða vetrarhörkur.Eins spáðu sumir í jurtaríkið og góð berjaspretta þótti vita á snjóavetur.Einnig var sá siður að spá í kindagarnir um veðráttu komandi veturs.

  Heimildir: Saga daganna eftir Árna Björnsson.
  Flettingar í dag: 1055
  Gestir í dag: 54
  Flettingar í gær: 2134
  Gestir í gær: 86
  Samtals flettingar: 1553777
  Samtals gestir: 221823
  Tölur uppfærðar: 26.11.2014 12:20:58

  Eldra efni